Fréttir

Evrópumótaröðin breytir um nafn á næsta tímabili
Evrópumótaröðin breytir um nafn frá og með næsta tímabili.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 9. nóvember 2021 kl. 21:45

Evrópumótaröðin breytir um nafn á næsta tímabili

Evrópumótaröðin fagnar á næsta ári 50 ára afmæli. Frá og með næsta tímabili mun mótaröðin bera nýtt nafn, DP World Tour. Með nafnabreytingunni og nýjum styrktaraðilum mun heildar verðlaunafé aukast til muna og fara yfir 200 milljónir dollara yfir tímabilið. Í hverju móti mun að verðlaunafé vera að lágmarki 2 milljónir dollara.

Mótaröðin hefur átt undir högg að sækja í heimsfaraldrinum og verðlaunafé hefur farið lækkandi ásamt því sem gæði þeirra golfvalla sem mótin eru leikin á hafa farið minnkandi. Þetta eru því gleðifréttir fyrir kylfinga á mótaröðinni og aðstandendur hennar.

Dagskrá mótaraðarinnar mun nú telja 47 mót yfir tímabilið í 27 mismunandi löndum. Í fyrsta sinn verða þrjú mót haldin í samstarfi við PGA mótaröðina, Genesis Scottish Open, BMW PGA Championship og Barracuda Championship.

Fyrsta mótið undir nýja nafninu verður Joburg Open mótið sem fram fer í Jóhannesar borg í Suður Afríku 22-25 nóvember næstkomandi.