Fréttir

Evrópumót stúlknalandsliða hafið á Urriðavelli
Pamela Ósk Hjaltadóttir lék á 6 höggum yfir pari á fyrsta keppnisdegi á EM. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 5. júlí 2022 kl. 20:53

Evrópumót stúlknalandsliða hafið á Urriðavelli

Ísland í 15. sæti að loknum fyrsta keppnisdegi

Það er sannkölluð golfhátíð á Urriðavelli Golfklúbbsins Odds í vikunni en Evrópumót stúlknalandsliða hófst þar í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið fer fram á Íslandi en EM kvenna fór fram á sama velli árið 2016.

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana er leikinn höggleikur þar sem að fimm lægstu skorin hjá hverju liði telja. Liðunum er raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, átta efstu liðin leika í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið leika um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli er leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan.

Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag. Í fyrri umferðinni eru leiknir tveir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Eftir hádegi eru leiknir fimm tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni.

Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbins Odds, sagði í stuttu spjalli við kylfing.is nú undir kvöld að allt hafi gengið mjög vel til þessa.

„Við finnum fyrir ánægju og gleði meðal viðstaddra. Það rigndi aðeins seinni partinn en það kom nú ekki að sök. Stelpurnar eru að slá virkilega vel og ná þokkalegu skori. Þetta eru hörkukylfingar. Þær eru ekkert síðri en þær sem voru hér á EM kvenna fyrir sex árum síðan. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þeim áfram í vikunni og á stærri sviðum í framtíðinni,“ sagði Þorvaldur.

Fyrsta keppnisdegi er lokið á Urriðavelli og sitja okkar konur eftir daginn í 15. sæti. Þær léku samtals á skori sem telur 47 högg yfir par vallarins. Enska liðið leiðir eftir fyrsta hring á samtals 6 höggum yfir pari, þremur höggum betur en lið Frakklands og Svíþjóðar. Fyrstu stúlkur verða ræstar út á annan hringinn klukkan átta í fyrramálið.

Staðan á mótinu

Lið Íslands skipa þær Berglind Erla Baldursdóttir úr GM, Karen Lind Stefánsdóttir úr GKG, Pamela Ósk Hjaltadóttir úr GM, Sara Kristinsdóttir úr GM, María Eir Guðjónsdóttir úr GM og Katrín Sól Davíðsdóttir úr GM. Ragnhildur Kristinsdóttir er liðsstjóri.

 Efri röð frá vinstri: Pamela Ósk Hjaltadóttir, Katrín Sól Davíðsdóttir, Berglind Erla Baldursdóttir. Neðri röð frá vinstri: Ragnhildur Kristinsdóttir liðsstjóri, Karen Lind Stefánsdóttir, María Eir Guðjónsdóttir og Sara Kristinsdóttir. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson

Lið Englands er með þriggja högga forskot á lið Frakklands og Svíþjóðar að loknum fyrsta hring á Urriðavelli. Ljósmynd: GSÍ/Siguður Elvar Þórólfsson