Fréttir

Evrópumót eldri kylfinga 55+ haldið á Íslandi og hefst á miðvikudag
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 30. júlí 2024 kl. 09:21

Evrópumót eldri kylfinga 55+ haldið á Íslandi og hefst á miðvikudag

„Það er bæði keppt með og án forgjafar, sem gerir mótið frábrugðið öðrum landsliðskeppnum en gerir þetta bara skemmtilegra,“ segir formaður LEK, Gauti Grétarsson en LEK stendur fyrir Landssamband eldri kylfinga. Evrópumót er haldið á hverju ári og nú er komið að Íslendingum að vera gestgjafar og verður leikið á golfvöllunum á Korpúlfsstöðum og á Hlíðavelli í Mosfellsbæ en þessir vellir liggja nánast saman. Leikar hefjast á miðvikudag og verður keppt fram á föstudag.

Íslenska liðið hefur undanfarin ár lent í fimmta til ellefta sæti, bæði í keppni án og með forgjafar. Markið er sett hærra í ár fyrst leikið er á heimavelli.

„Þetta er evrópumót eldri kylfinga, 55 ára og eldri, 228 keppendur frá nítján löndum. Við sendum lið 65 ára og eldri til keppni í Póllandi fyrr í sumar en nú er komið að okkur að halda þetta mót 55 ára og eldri. Undirbúningur hefur staðið yfir í eitt ár má segja og er frábært hvernig þessir klúbbar, Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfklúbbur Mosfellsbæjar hafa unnið þetta saman en mótið fer fram á tveimur völlum, að Korpúlfsstöðum og á Hlíðavelli í Mosfellsbæ en þeir liggja ansi nærri hvorum öðrum sem er auðvitað mjög hentugt. Þó svo að veðrið sé ekki búið að vera frábært að undanförnu er ég viss um við fáum gott veður á meðan mótið fer fram, ég ætla að hugsa jákvætt, þá gerast oft góðir hlutir.“

LEK-mótaröðin hefur verið við lýði í um 40 ár en þá keppa eldri kylfingar sín á milli um þátttökurétt í Evrópumótinu sem fer fram ári síðar. Einn megintilgangur LEK er að stuðla að lýðheilsu þessa aldurshóps og hefur félagsskapurinn fest sig rækilega í sessi. Þetta eru átta mót á hverju sumri og menn vinna sér inn stig og þeir hæstu skipa svo landsliðið að ári en kylfingar geta gengið í LEK við fimmtugsaldurinn en til að geta keppt í þessu Evrópumóti þarf að vera búið að ná 55 ára aldri.

„Liðin okkar eru skipuð þannig að í liðinu án forgjafar sem kallað er championship-liðið og keppir í Meistarakeppninni, eru Guðmundur Arason sem er í GR, Tryggvi Traustason í Setbergi, Guðmundur Sigurjónsson í GKG, Hjalti Pálmason í Golfklúbbi Mosfellsbæjar, Ólafur Hreinn Jóhannesson sem er í Setbergi og Halldór Ásgrímur Ingólfsson. Forgjöf liðsmanna er frá +0,7 upp í 3,5. Í liðinu með forgjöf þar sem keppt er um Evrópubikarinn eru ég Gauti Grétarsson í Nesklúbbnum, Pall Poulsen í Golfklúbbnum Keili, Ingvar Kristinsson, sömuleiðis í Keili, Iouri Zinoviev í GR, Þórhallur Óskarsson í Golfklúbbi Sandgerðis og Kjartan Jóhannes Einarsson í GKG. Við erum með á bilinu 1,9 til 13,6 í forgjöf. Það er ekkert verið að flækja leikfyrirkomulagið, einfaldur höggleikur og fjórir bestu telja til skors. Í flokknum með forgjöf er punktaleikur,“ segir Gauti.

Segja má að Gauti sé beggja vegna borðsins þar sem hann er formaður LEK og er líka að keppa.

„Undirbúningur hefur verið í gangi í ár má segja, við erum með gott lið í kringum okkur sem erum að keppa og svo hafa fjölmargir komið að undirbúningi sjálfs mótsins, Baldur Gíslason hefur leitt þá vinnu og gert vel og fjölmargir stuðningsaðilar styðja við bakið á okkur og gera okkur kleift að halda þetta flotta mót. Okkur Íslendingum hefur gengið ágætlega undanfarin ár, lent í bilinu fimmta til níunda sæti án forgjafar og í fimmta til ellefta sæti með forgjöf. Þar sem við erum á heimavelli stefnum við að sjálfsögðu hærra og höfum alla burði til þess. Ég hlakka mikið til og er sannfærður um að við sem skipum liðin munum verða landi og þjóð til sóma,“ sagði Gauti að lokum.