Fréttir

Elsta holan á Íslandi er í Vestmannaeyjum
Frá 8. braut á Vestmannaeyjavelli
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 14:36

Elsta holan á Íslandi er í Vestmannaeyjum

Þrjár flatir eru upprunalegar frá vellinum sem opnaður var árið 1938

Það vita trúlega ekki allir að elsta golfholan á Íslandi er staðsett í Vestmannaeyjum. Bæði 6., 7. og 8. flöt eru upprunalegar á Vestmannaeyjavelli.

Flötin á 8. brautinni er umkringd glompum og við henni blasir Fjósaklettur en talið er að Herjólfur Bárðarson, fyrsti landsnámsmaðurinn í Vestmannaeyjum, hafi haft fjós sitt á klettnum.

Þótt Golfklúbbur Reykjavíkur sé elsti klúbburinn þá hefur fyrsti völlur GR verið lagður af. Golfklúbbur Reykjavíkur hét upphaflega Golfklúbbur Íslands og var stofnaður árið 1934 en nafni klúbbsins var breytt þegar fleiri klúbbar urðu til. Fyrsti völlurinn var í Laugardal en Golfklúbbur Reykjavíkur stoppaði stutt við þar. Völlurinn í Vestmannaeyjum var opnaður árið 1938.

Íslandsmótið í golfi fer einmitt fram á Vestmannaeyjavelli í ágúst. Mótið fór fyrst fram hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja árið 1959 svo það er mikil saga á bakvið Íslandsmótið í Vestmannaeyjum. Mótið fór fjórum sinnum fram þar áður en völlurinn varð 18 holur og þetta er í fimmta sinn sem það verður á Vestmannaeyjavelli eftir að hann varð 18 holur.