Fréttir

Casey Martin fór í aðgerð þar sem hægri fótleggur hans var fjarlægður
Casey Martin náði frábærum árangri sem kylfingur þrátt fyrir fötlun sína.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
miðvikudaginn 20. október 2021 kl. 09:03

Casey Martin fór í aðgerð þar sem hægri fótleggur hans var fjarlægður

Margir golfáhugamenn kannast við nafn Casey Martin. Martin er fæddur með sjaldgæfan blóðflæðis sjúkdóm í hægri fæti, Klippel-Trenaunay-Weber syndrome.

Þrátt fyrir það náði hann að komast alla leið á PGA mótaröðina í kringum síðustu aldamót.

Vegna ástands síns þurfti hann að fá undanþágu til að leika á golfbíl þar sem hann átti mjög erfitt með gang og gat ómögulega gengið 18 holur. Mótaröðin var treg til að veita undanþáguna sem varð til þess að Martin fór í mál þar sem hann hafði betur í hæstarétti Bandaríkjanna árið 2001.

Síðustu ár hefur Martin verið þjálfari golfliðs Oregon háskólans en sjálfur átti hann frábæran háskólaferil þegar hann var liðsfélagi Tiger Woods og Notah Begay í Stanford. Saman urðu þeir bandarískir háskólameistarar árið 1994.

Fyrir tveimur árum síðan var Martin að fara út með ruslið heima hjá sér og varð fyrir því óláni að detta og fótbrotna. Vegna sjúkdómsins greri brotið aldrei almennilega og á föstudaginn síðasta þurftu læknar að fjarlægja fótlegginn.

Aðgerðin gekk vel og eru læknar vongóðir um að Martin geti notast við gervifót í framtíðinni og haldið áfram starfi sínu sem þjálfari Oregon liðsins sem hann hefur ekki náð að sinna síðustu tvö árin.