Fréttir

Cameron Smith vann Opna mótið með frábærum lokahring
Cameron Smith fagnar á St. Andrews. Ljósmynd: AP
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 19:00

Cameron Smith vann Opna mótið með frábærum lokahring

Engum í sögu mótsins hefur tekist að fara á lægra skori á þessum velli

Ástralinn Cameron Smith steig ekki feilspor á lokahring Opna mótsins sem lauk á The Old Course á St. Andrews í Skotlandi í dag. Smith lék óaðfinnanlegt golf og lauk hringnum á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari. Hann fékk átta fugla og tíu pör. Smith fékk fimm fugla í röð á 10. til 14. holu. Samtals lék hann hringina fjóra á 268 höggum (67-64-73-64) eða á 20 höggum undir pari.

Bandaríkjamaðurinn Cameron Young, sem leiddi mótið að loknum fyrsta hring, sótti fast að nafna sínum,  þegar hann fékk örn á lokaholunni. Það dugði þó ekki til og Smith, sem fékk fugl á þeirri átjándu, vann mótið með einu höggi.

Engum kylfingi hefur tekist að leika Opna mótið á The Old Course á St. Andrews á færri höggum né lægra skori en Smith gerði í ár en goðsögnin Tiger Woods sigraði á 269 höggum eða á 19 höggum undir pari árið 2000.

Rory McIlroy og Viktor Hovland voru jafnir og efstir fyrir lokadaginn en þeir höfðu fjögurra högga forystu á þá Smith og Young. Þótt McIlroy hafi ekki misst högg á hringnum í dag fékk hann aðeins tvo fugla og lauk leik í dag á 2 höggum undir pari. Rory, sem vann Opna mótið síðast árið 2014 þarf að bíða í a.m.k. eitt ár til viðbótar. Raunar hefur Norður-Írinn ekki sigrað á risamóti síðan síðar sama ár þegar hann sigraði á PGA meistaramótinu.

Viktor Hovland fékk aðeins einn fugl en fjóra skolla sem skilaði honum í hús á tveimur yfir pari vallarins. Hann hafnaði í 4.-5. sæti ásamt Englendingnum Tommy Fleetwood.

Lokastaðan á mótinu

Cameron Smith sýndi fádæma ró og stáltaugar þegar hann púttaði fram hjá glompu á 17. holu til þess að komast sem næst holu. Púttið var afskaplega vel framkvæmt og hann bjargaði svo pari í kjölfarið sem varð til þess að Ástralinn steig á 18. teiginn með eins höggs forskot.

Það má segja að sigur Smith komi sumpart á óvart en þetta er fyrsti sigur hans á risamóti en hann tók fyrst þátt í Opna mótinu árið 2017. Þá náði hann ekki niðurskurðinum og hefur hæst lent í tuttugasta sæti þar til nú. Cameron Smith stóð uppi sem sigurvegari á Players meistaramótinu fyrr á þessu ári en þá var hann sjóðheitur á pútternum og sýndi stáltaugar og yfirvegun eins og hann gerði í dag.

Smith lék á 64 höggum eða á 8 höggum undir pari The Old Course á St. Andrews í tvígang á mótinu, bæði á öðrum hring á föstudag og á lokahringnum í dag. Fyrir mótið í ár hafði engum sigurvegara sigurvegara á Opna mótinu tekist að leika þennan sögufræga völl á undir 65 höggum á þessu goðsagnakennda móti. Grunninn að sigrinum lagði hann með algjöru fuglafári á byrjun seinni níu og eins og svo oft áður var pútterinn hans besti vinur á mótinu.