Fréttir

Björn Víglundsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku hjá GR
Björn Víglundsson hefur setið sem formaður GR í 7 ár. Hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs á aðalfundi klúbbsins 6. desember næstkomandi. - mynd grgolf.is
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
sunnudaginn 21. nóvember 2021 kl. 20:54

Björn Víglundsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku hjá GR

Björn Víglundsson formaður Golfklúbbs Reykjavíkur sendi í síðustu viku bréf til félagsmanna þar sem hann tilkynnir að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 6. desember næstkomandi.

Hér að neðan má sjá bréfið sem Björn sendi félagsmönnum:

„Ágætu félagar,

Nú er golfsumrinu formlega lokið hjá okkur. Spilað var vel fram eftir hausti og lokuðu vellir ekki fyrr en undir lok október. Við þökkum fyrir það. Nú er kominn tími til að snúa sér að vetrarverkefnum og undirbúa næsta golfsumar.

Aðalfundur GR er á næsta leiti, en hann verður haldinn þann 6. desember n.k. Ég hef tekið þá ákvörðun að vera ekki í framboði á þeim fundi. Ég hef setið sem formaður í 7 ár og enn lengur í stjórninni. Það hefur verið virkilega gefandi og skemmtilegur tími. Tel ég að nú sé góður tími til að stíga til hliðar.

Mikill tími hefur farið í stefnumótandi verkefni fyrir GR, sem nú eru að komast á framkvæmdastig. Framkvæmdir munu, án efa, taka nokkur ár. Mig langar til þess að stikla aðeins á stóru hvað varðar   stöðu þessara verkefna.

Eitt stærsta verkefni klúbbsins er að bæta aðstöðu til iðkunar allt árið um kring. Með Básum var stigið risa stórt skref í bætingu á æfingaaðstöðu, en nú er kominn tími á upphitaða, heilsárs aðstöðu. Þegar þessi orð eru rituð styttist í endanlegt tilboð í húsið og stendur vilji stjórnar til þess að framkvæmdir hefjist um áramótin þannig að hægt verði að æfa golf í húsinu næsta vetur. Þetta verður gríðarleg bylting fyrir GR og kærkomin viðbót við okkar góða starf.

Endurbætur vallarins í Grafarholti er annað stórt verkefni sem unnið hefur verið að. Á næstu vikum verður uppfærð áætlun kynnt fyrir félagsmönnum. Þá hefur stjórn tekið ákvörðun um að hefja verkefnið í vetur, og munu nýjar flatir á fyrstu og fjórtándu braut verða byggðar ásamt endurnýjun teiga á fyrstu braut. Þá er stórt skref stigið. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um alla þætti  er tengjast endurbótunum og verður spennandi að fylgjast með þessu verkefni þroskast næstu árin og sjá góðan völl verða enn betri. Þá verður stefnt að því að trufla daglegt spil sem allra minnst.

Allt þetta þarf að fjármagna og hefur það verið þriðja stóra verkefnið að vinna að samningi við Reykjavíkurborg um fjármögnun þessara verkefna. Búið er að ryðja flestum hindrunum úr veginum og er það von mín að skrifað verði undir samning við borgina nú fyrir áramótin.

GR stendur vel. Við höfum sterka fjárhagslega stöðu, sterkan félagsanda og frábæra golfvelli.  Ég er stoltur og þakklátur fyrir minn tíma sem formaður. Ég hef notið samstarfs við frábært fólk í stjórninni og einstakt starfsfólk klúbbsins. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar ég þakka framkvæmdastjóra klúbbsins sérstaklega fyrir gott starf og skemmtilegt samstarf. Það verður spennandi að fylgjast með félaginu dafna og góð ástæða til þess að vera bjartsýnn á framtíð Golfklúbbs Reykjavíkur.

Með GR kveðju,

Björn Víglundsson
Formaður".