Fréttir

Bjarki og Guðmundur Ágúst þurfa „heitan“ pútter
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 10. nóvember 2022 kl. 21:20

Bjarki og Guðmundur Ágúst þurfa „heitan“ pútter

Þeir Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson voru báðir sáttir með frammistöðuna á 2. stigi úrtökumótanna fyrir DP Evrópumótaröðina, en þeir hefja leik föstudaginn 10. október á lokaúrtökumótinu. 

„Slátturinn var mjög stöðugur og góður og vinnan sem við Arnar Már erum búnir að leggja inn þar er að skila sér. Ég hinsvegar púttaði ekki vel (á 2. stiginu). Það verður mikilvægt að vera heitur á pútternum í lokamótinu,“ sagði Bjarki í stuttu spjalli eftir keppnina um síðustu helgi á 2. stiginu. 

Guðmundur Ágúst var líka ánægður að hafa komist í gegnum það. „Lokastigið leggst mjög vel í mig. Frammistaðan fín en stuttu höggin gætu verið mun betri og eins pútterinn. Nú er bara að vona að allt gangi upp í lokamótinu,“ sagði Guðmundur Ágúst.

Tuttugu efstu af 153 keppendum fá þátttökurétt á DP sem er efsta mótaröðin í Evrópu. Um helmingur af þessum 153 komust á lokastigið í gegnum 2. stigið. Það gerðu þeir Bjarki og Guðmundur og eru að keppa annað sinn á þriðja stigi. Hinn helmingurinn eru kylfingar sem náðu ekki að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni 2022. 

Leikið verður í sex daga sem fram fer á Infinitum golfsvæðnu sem er skammt frá Tarragonga á Spáni.

Eftir fjóra hringi verður niðurskurður. Keppt er á tveimur völlum, sitt hvorar 36 holurnar á Lakes og Hills völlunum. Bjarki hefur leik á Lakes og Guðmundur á Hills. 

Haraldur Franklín Magnús var meðal keppenda á 2. Stiginu en komst ekki áfram á 3. stigið. Hann er með þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu 2023 og Guðmundur Ágúst líka. Bjarki er með aðeins takmarkaðri þátttökurétt en þeir tveir, en þetta gæti breyst eftir lokaúrtökumótið. 

Aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa náð inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar. Birgir Leifur Hafþórsson lék 13 sinnum á lokaúrtökumótinu og er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en það gerði hann árið 2007. Björgvin Sigurbergsson lék á lokaúrtökumótinu árið 2001 og árið 2019 var Andri Þór Björnsson á lokaúrtökumótinu líkt og Bjarki og Guðmundur Ágúst.