Fréttir

Bjarki, Axel og Hlynur á úrtökumóti í Danmörku
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 23. september 2024 kl. 14:10

Bjarki, Axel og Hlynur á úrtökumóti í Danmörku

Bjarki Pétursson úr Borgarnesi varð í 18. sæti á Great Northern Challenge mótinu á Nordic mótaröðinni í síðustu viku. Hlynur Bergsson var einnig meðal þátttakenda en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Bjarki lék á þremur undir pari, 70-69-74 en Hlynur lék 36 holurnar á pari, 74-70. Bjarki hefur leikið á 20 mótum á keppnistíðinni og er í 16. sæti á stigalistnum. Hlynur hefur leikið í 23 mótum og er í 52. sæti. Sigurður Arnar Garðarsson er í 53. sæti en hann hefur tekið þátt í níu mótum.  Aron Júlíusson hefur leikið í fimm mótum og er í 57. sæti. Fimm efstu á stigalistanum í lok árs fá fullan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour í Evrópu, einnig þeir sem sigra á þremur mótum á tímabilinu.

Á Áskorendamótaröðinni eru þrír íslenskir kylfingar með þátttökurétt í ár, Haraldur Franklín Magnús, Guðmundur Ág. Kristjánsson og Axel Bóasson. Þeir eru allir á leið í úrtökumót fyrir DP mótaröðina, þá efstu í Evrópu, og frammistaða þeirra þar  mun segja til um keppnisrétt þeirra á næstu keppnistíð. Axel, Bjarki og Hlynur verða á 1. stigi í Danmörku sem hefst á morgun. Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín fara líklega báðir á 2. stig úrtökumótanna. Guðmundur er í 83. sæti, Haraldur í 104. sæti og Axel í 203. sæti stigalistans á Áskorendamótaröðinni. 

Þeir Böðvar Bragi Pálsson, Andri Þór Björnsson, Logi Sigurðsson, Aron Snær Júlíusson og Hákon Örn Magnússon hafa þegar lokið leik á 1. stigi úrtökumótanna og komst enginn þeirra áfram.

Stigalistinn á Nordic.