Fréttir

Bíómynd um ævi Moe Norman á teikniborðinu
Tökur á bíómynd um ævi Moe Norman hefjast næsta vor.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 2. desember 2021 kl. 10:57

Bíómynd um ævi Moe Norman á teikniborðinu

Aðdáendur golfbíómynda fengu góðar fréttir í gær þegar tilkynnt var um það að tökur á bíómynd í fullri lengd um ævi Moe Norman myndu hefjast næsta vor.

Íshokkístjarnan fyrrverandi Wayne Gretzky, tengdafaðir Dustin Johnson er einn af framleiðendum myndarinnar. Faðir Gretsky var góður vinur Norman og hefur í gegnum tíðina deilt mörgum ótrúlegum sögum af honum með syni sínum.

Moe Norman sem er algjör goðsögn hjá mörgum golfáhugamönnum var þekktur fyrir að vera ótrúlega nákvæmur í slættinum. Hann réði ríkjum á kanadísku mótaröðinni á tímabili og sigraði alls 55 sinnum þar.

Hann reyndi fyrir sér í stuttan tíma á PGA mótaröðinni en gekk ekki vel. Að hluta til vegna feimni og sérstakrar framkomu sem féll ekki í kramið hjá mörgum meðspilurum hans í Ameríku. Þótt hann hafi aldrei fengið eiginlega greiningu hafa margir haldið því fram að hann hafi verið á rófi einhvefu.

Það er full ástæða til að láta sér hlakka til enda af nægu efni að taka til að búa til frábæra bíómynd um þennan einstaka karakter.

Hér að neðan má sjá umfjöllun ESPN um Moe Norman fyrir nokkrum árum.