Fréttir

  • Bestu golfvellir Englands
  • Bestu golfvellir Englands
    Opna mótið var haldið á Royal Liverpool (Hoylake) árið 2014
Mánudagur 16. janúar 2023 kl. 12:44

Bestu golfvellir Englands

Golf World setur reglulega saman lista yfir bestu golfvelli í heiminum. Nýlega var gefinn út listi yfir 200 bestu golfvellina á Englandi. Chris Bertram er ritstjóri listans, en nefnd samsett af um 20 manns spilar alla helstu golfvelli og gefur þeim einkunnir samkvæmt ákveðinni formúlu.

Hönnun (40 stig): Þessum lið er skipt í þrjá undirliði. Er landslagið nýtt við hönnun vallarins (20), flatarstæðin (10) og lega vallar (10)

Staðsetning (15 stig): Staðsetning og útsýni af vellinum og innan hans. Hvernig er upplifunin á vellinum (ekki klúbbnum).

Upplifun (15 stig): Hversu eftirminnilegar eru holurnar? Eru þær áhugaverðar og skera sig úr? Bjóða þær uppá leikkænsku.

Erfiðleikastuðull (10 stig): Hversu erfiður eða skemmtilegur er völlurinn fyrir kylfinga. Er hann kannski of erfiður?

Samkvæmni (10 stig): Eru allar holurnar góðar. Er völlurinn samkvæmur sjálfum sér, eða eru nokkrar lélegar holur?

Viðhald (10 stig): Hvernig er viðhald vallarins og umhverfis. Ástand teiga, brauta, glompa og flata.

Í efstu 10 sætunum eru eftirfarandi golfvellir:

10 Royal Cinque Ports

Royal Cinque Ports nær á topp 10 listann eins og St. Georges Hill. 

Að spila inn á milli sandhólanna er sannkölluð upplifun og síðasti þriðjungur vallarins býður uppá einhverjar af bestu lokaholum á Englandi.

9 St.George´s Hill (Red/Blue)

Hástökkvari og kemst á topp 10 lisann í fyrsta sinn. Völlurinn hefur oft verið vanmetinn en ekki lengur.  Mikill og stórkostlegur hæðarmunur.

8 Royal Liverpool

Völlur sem hefur þróast og orðið betri með tímanum. Mikil saga og mun meira flæðandi landslags en kylfingar gera sér almennt grein fyrir.

7 Royal Lytham & St Annes

Það sem uppá vantar útlitslega er bætt upp með vel ígrunduðum staðsetnginum á glompum sem refsa hressilega. Erfiður golfvöllur sem er gaman að takast á við. Frábært viðhald og vallargæði þar sem Opna mótið hefur verið leikið 11 sinnum.

6 Swinley Forest

Stórskemmtilegur völlur og sannkölluð upplifun að spila. Hittir beint í hjartastað.

5 Sunningdale (New)

Erfiðari völlurinn af tveimur á Sunningdale. Alvöru keppnisvöllur og alveg jafn glæsilegur og sá gamli. Hefði auðveldlega getað verið 2 sætum ofar - kæmi ekki á óvart að einn daginn væru Sunningdale vellirnir tveir í þremur efstu sætunum.

4 Woodhall Spa (Hotchkin)

Stórkostleg endurhönnun Tom Doak heldur Hotchkin vellinum í topp 5. Þrátt fyrir að vera á flatlendi eru glompurnar nógu djúpar til að gera aðra strandvelli afbrýðisama.

3 Royal Birkdale

Erfiður en sanngjarn völlur og uppáhalds strandvöllur margra á Englandi. Einn af strandvöllunum sem Opna mótið er leikið á og atvinnumennirnir elska.

2 Sunningdale (Old)

Einhver sú besta upplifun sem hægt er að fá í golfi. Án nokkurs vafa besti völlur Bretlandseyja sem ekki er strandvöllur. Landslag og lyngsvæði sem eiga sér engan líka. Toppklassa golfvöllur.

1 Royal St. Georges

Enn og aftur í efsta sæti völlurinn sem kallaður er „Sandwich“. Án þess að vera með nokkur leiðindi þá verður svona listi aldrei gerður án þess að vera umdeildur. Að mati Golf World er Royal St. Georges einfaldlega besti golfvöllur Englands. Krefjandi en hrikalega skemmilegur. Þessi gestgjafi Opna mótsins býður uppá allt sem  kylfingar geta óskað sér.

Listann í heild sinni má sjá hér. 

Hverja af þessum völlum hefur þú leikið?