Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Fréttir

Besti golfvöllur í heimi
Sunnudagur 22. janúar 2023 kl. 21:00

Besti golfvöllur í heimi

Pine Valley í suðurhluta New Jersey fylkis í Bandaríkjunum er af flestum sérfræðingum sagður besti golfvöllur í heimi. Það er ekkert víst að kylfingar hafi heyrt um völlinn þvi Pine Valley Golf Club er einkaklúbbur með mjög þröngum inntökuskilyrðum. Hann var stofnaður árið 1913 af hópi áhugakylfinga. Þeir keyptu 75 hektara af landi og gáfu George Arthur Crump sem hafði stundað veiðar á landinu tækifæri að hanna völlinn. Crump þessi varð heltekinn af verkefninu. Hann seldi hótel sem hann átti í Philadelphia og setti alla fjármuni sem hann átti í völlinn. Þurrka þurfti mýrlendi og 22.000 trjáboli þurfti að rífa uppúr landinu. Allt þetta var gert á tíma þar sem flestir golfvellir voru hannaðir og byggðir með eins litlu jarðraski og hægt var. 

Þetta var fyrsta og eina hönnunarverkefni Crump. Hann fékk marga heimsfræga golfvallahönnuði til aðstoðar. Crump setti sér nokkur stórundarleg prinsipp við hönnun vallarins m.a. að engar tvær brautir skyldu liggja hlið við hlið, að hámarki tvær brautir í röð myndu liggja í sömu átt, leikmenn áttu aldrei að sjá aðra holu en þá sem þeir voru að spila hverju sinni og ættu að þurfa nota allar kylfurnar í pokanum á hringnum. Byrjað var að leika fyrstu ellefu holur vallarins árið 1914. Crump dó árið 1918, staurblankur. Þá átti eftir að byggja holur nr. 12-15. Þær voru fullkláraðar árið 1922. Landsvæði vallarins sækkaði síðar í 250 hektara, þar af eru 166 ósnertur skógur. Frá andláti Crump hafa nokkrar breytingar verið gerðar á vellinum  í umsjón heimsfrægra golfvallahönnuða. Á Pine Valley er líka að finna lítinn 10 holu völl sem hannaður eru að Tom Fazio og Ernest Ransome III.

Klúbburinn er lokaður. Aðgangur að honum fæst eingöngu samkvæmt boði frá stjórn klúbbsins. Eina leiðin fyrir gesti til að spila á vellinum er að fá boð frá félagsmanni sem jafnframt leikur með þeim. Gestirnir skulu vera lágforgjafarkylfingar. Þann 30. apríl 2021 var ákveðið að kynjaskorður yrðu fjarlægðar úr lögum klúbbsins. Fram til þess dags var konum einungis heimilt að leika völlinn seinnipartinn á sunnudögum. Félagsmenn í klúbbnum eru 930 og koma víðs vegar að úr heiminum. Meðal frægra meðlima voru m.a. Sean Connery, George Bush og Arnold Palmer.

Pine Valley hefur verið valinn besti völlur Bandaríkjanna af Golf Magazine sleitulaust frá árinu 1985. Walker Cup sem er liðakeppni milli áhugamanna frá Bretlandseyjum og Bandríkjanna var leikin á vellinum 1936 og 1985. Árið 1962 var tekinn upp þáttur í Shell´s Wonderful World of Golf þar sem Gene Littler og Byron Nelsson öttu kappi. Annar er áhofendum einungis hleypt inn á svæðið einu sinni á ári, en það er til að fylgjast með Crump Cup, sem er keppni milli áhugamannkylfinga í fremstu röð. Keppnin var fyrst haldin árið 1922 og er nefnd eftir golfvallahönnuðinum George Crump sem minnst er á hér að ofan. Lokahringur mótsins fer fram síðasta sunnudaginn í september og þá er áhorfendum hleypt inn á svæðið. Þeir eru skyldugir að leggja bílum sínum á bílastæði skemmtigarðs í nágrenninu, greiða íþróttafélagi staðarins fyrir stæði og akstur í skólabílum á golfvöllinn. Stranlega bannað er að taka síma og myndavélar inn á völlinn.