Aron Snær komst einn Íslendinganna í gegnum niðurskurðinn
Gísli Sveinbergsson, Aron Bergsson og Hákon Harðarson bættu sig á milli hringja en það dugði ekki til
Aron Snær Júlíusson úr GKG, sem var 2 höggum undir pari eftir fyrsta hring á UNICEF Championship, Aron kom í hús á 71 höggi á öðrum hring eða á 1 höggi undir pari Sky vallarins á Lübker Sand í Danmörku. Hann er því samtals á 3 höggum undir pari og er í 10.-12. sæti fyrir lokahringinn á morgun.
Hann fékk tvo skolla, einn fugl og einn örn á hringnum.
Fjórir íslenskir keppendur hófu leik á mótinu, sem er hluti af Ecco mótaröðinni og Nordic Golf League. Aron Bergsson sem leikur fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð lék á 75 höggum eða á 3 höggum yfir pari á fyrsta hring og á 73 höggum eða á 1 höggi yfir pari á öðrum hring. Hann lauk leik á 4 höggum yfir pari en niðurskurður miðaðist við 3 högg yfir par. Gísli Sveinbergsson úr GK lék fyrsta hring á 76 höggum eða á 4 höggum yfir pari og annan hring á pari. Hann missir því af niðurskurðinum rétt eins og Aron. Hákon Harðarson, sem leikur fyrir Royal Golfklúbbinn í Danmörku náði sér engan veginn á strik á fyrsta hring og lék á 83 höggum eða á 11 höggum yfir pari vallarins. Hákon bætti sig um þrjú högg á öðrum hring og lauk leik á 19 höggum yfir pari samtals.
Jeppe Kristian Andersen frá Danmörku og Viktor Edin frá Svíþjóð eru með þriggja högga forskot á toppnum fyrir lokahringinn á 9 höggum undir pari.
Aron Snær fer út á lokahringinn laust fyrir klukkan sex í fyrramálið á íslenskum tíma.