Fréttir

Aron Emil fékk Björgvinsskálina og Hulda Clara Guðfinnubikarinn
Þriðjudagur 23. júlí 2024 kl. 18:25

Aron Emil fékk Björgvinsskálina og Hulda Clara Guðfinnubikarinn

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, vann Guðfinnubikarinn á Íslandsmótinu í Leiru og Aron Emil Gunnarsson frá Selfossi vann Björgvinsskálina. Þetta eru viðurkenningar fyrir áhugakylfinga sem leika á besta skorinu í mótinu.

Keppt var um Guðfinnubikarinn í fyrsta skipti í ár og bikarinn kemur frá Guðfinnu Sigurþórsdóttur, þreföldum og fyrsta Íslandsmeistara kvenna í golfi en hún vann fyrst 1967. „Ég sé nú pínulítið á eftir þessum bikar því hann er skemmtileg minning en tilefnið var gott og skemmtilegt,“ sagði Guðfinna en Karen dóttir hennar, áttfaldur Íslandsmeistari, afhenti Huldu Guðfinnubikarinn í mótslok.

Aron Emil var á lægsta skori áhugakylfinga á Íslandsmótinu 2024 og er fjórði kylfingurinn sem vinnur Björgvinsskálina sem keppt var um í fyrsta skipti 2021. Þá vann Aron Snær Júlíusson, þá áhugamaður en nú tvöfaldur Íslandsmeistari, Björgvinsskálina. Hún er veitt þeim áhugamanni sem er á lægsta skori í Íslandsmótinu. Logi Sigurðsson, GS, vann skálina í fyrra og Kristján Þór Einarsson, GM, árið á undan.

Björgvin Þorsteinsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi lést í október 2021. Hann tók þátt í 56 Íslandsmótum, þar af 55 í röð og það verður líklega seint slegið.