Fréttir

Arnór Ingi sex undir og skollalaus í Grafarholtinu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 15. ágúst 2022 kl. 14:30

Arnór Ingi sex undir og skollalaus í Grafarholtinu

Hart barist um glæsileg verðlaun!

Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR, sigraði á Opna Aukakrónu mótinu sem fram fór í Grafarholti í gær, 14. ágúst. Arnór lék á sex höggum undir pari eða 64 höggum og var höggi betri en Dagbjartur Sigurbrandsson sem var á 65.

Tæplega tvöhundruð kylfingar mættu til leiks en verðlaun voru mjög vegleg og freistuðu greinilega margra. Golfferð í efsta sætið og 100.000 aukakrónur í 2. sæti og efsta sæti í punktakeppni karla og kvenna.

Arnór fékk sex fugla og engan skolla og það er eitthvað sem marga kylfinga dreymir um. Karla léku á gulum teigum en konur á rauðum. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur var meðal keppenda og lék á 69 höggum, einu höggi undir pari. Hulda Clara Gestsdóttir, Íslandsmeistari 2021 var á pari.

Í punktakeppni karla voru Davíð Jónsson og Sigurður J. Leifsson með 41 punkt en sigurinn fór til Davíðs. Í punktakeppni hjá kvenfólkinu var Ásdís Valsdóttir efst með 39 punkta.