Örninn22_bland
Örninn22_bland

Fréttir

Andri Þór og Bjarki komust áfram í Tékklandi
Andri Þór Björnsson komst í gegnum niðurskurðinn líkt og Bjarki Pétursson í frumraun sinni á Áskorendamótaröðinni á þessu keppnistímabili.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 17. júní 2022 kl. 20:02

Andri Þór og Bjarki komust áfram í Tékklandi

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst eru úr leik

Þeir Andri Þór Björnsson úr GR og Bjarki Pétursson úr GKG komust í gegnum niðurskurðinn á Kaskáda Golf Challenge á Áskorendamótaröðinni en öðrum hring lauk í dag. Fresta þurfti leik vegna þrumuveðurs í gær og svo aftur vegna birtuskilyrða en leik á hringnum lauk nú í morgun og í kjölfarið fóru kylfingar út á annan hringinn.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Þeir félagar þreyta frumraun sína á mótaröðinni á þessu keppnistímabili. Þeir sitja í 58.-73. sæti á samtals 1 höggi undir pari að loknum tveimur hringjum.

Haraldur Franklín Magnús úr GR, sem lék á níunda móti sínu á keppnistímabili mótaraðarinnar og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, sem lék sínu sjöunda móti, komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Daninn Martin Simonsen leiðir mótið inn í helgina á 13 höggum undir pari.

Staðan á mótinu

Skorkort Bjarka

Skorkort Andra Þórs

Skorkort Haralds Franklíns

Skorkort Guðmundar Ágústs

Andri Þór sagði í stuttu spjalli við kylfing.is að mótið hafi verið nokkuð óvenjulegt.

„Við náðum ekki að klára í gær vegna myrkurs. Ég var búinn með 5 holur þegar það þurfti að fresta leik útaf þrumuveðri. Ég náði svo aðeins að klára 15 holur í gær og þurfti að mæta á 16. teig og klára fyrsta hringinn í morgun. Fyrsti hringurinn var pínu stöngin út þar sem ég fékk fullt af fínum tækifærum. Seinni hringurinn einkenndist hinsvegar miklu meira af baráttugolfi en bæði var vindur og ég var ekki alveg jafn vel stilltur og í gær. Ég fann samt oftast leið til að redda parinu og svo nýtti ég einhver tækifæri þegar þau gáfust.“

Bjarki sagði mótið hafa gengið upp og niður.

„Ég var síðasti maður inn í mótið sem gerði það að verkum að ég mætti seinnipartinn á miðvikudeginum. Ég náði rétt að hlaupa völlinn og sjá hvenrig hann var að spilast. Spilamennskan er búin að vera mjög stöðug en ég er ennþá að gera mikið af klaufamistökum sem hreinlega má ekki ef maður vill vera ofarlega. Slátturinn er búin að vera stöðugur og ég hélt ég væri komin á flugbrautina í morgun þegar ég var komin með 5 fugla á fyrri níu holunum. Seinni níu holurnar einkenndust svo af fínu spili en tvær, þrjár sveiflur kostuðu mig og púttinn hættu að detta. Það væri ansi gaman að halda áfram að setja fugla og hætta þessum aulamistökum sem eru að skemma hringina aðeins fyrir mér.“

Andri Þór og Bjarki verða ræstir út á þriðja hring laust fyrir klukkan átta í fyrramálið á íslenskum tíma. Fylgst verður með framgöngu þeirra hér á kylfingur.is.