Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Ætlaði að kaupa bakarí en eignaðist golfverslun
Hjónin Gestur Már Sigurðsson og Harpa Þorleifsdóttir keyptu Golfbúðina í Hafnarfirði haustið 2020
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 18. júní 2022 kl. 23:32

Ætlaði að kaupa bakarí en eignaðist golfverslun

„Ég hef verið bakari í 42 ár en hef verið í golfinu enn lengur svo kannski var eðlilegra að fara frekar út í rekstur tengdum golfinu,“ segir Gestur Már Sigurðsson framkvæmdasjóri og eigandi Golfbúðarinnar í Hafnarfirði. Hann settist niður með kylfingi.is á dögunum og sagði tilviljanakennda sögu af kaupunum á búðinni.

Hjónin Gestur Már Sigurðsson og Harpa Þorleifsdóttir keyptu Golfbúðina í Hafnarfirði af öðrum hjónum, Sigurgísla Skúlasyni og Kristínu Úlfljótsdóttur haustið 2020. Gestur sér um daglegan rekstur en auk þess að starfa í búðinni sér Harpa um bókhaldið. Gestur, sem er bakari að mennt, fór að venja komur sínar í Golfbúðina í kringum 1995 en þá hafði hann nýhafið störf í Bæjarbakaríi í Hafnarfirði. Gestur settist niður með kylfingi.is og fór yfir söguna af því þegar þau hjónin keyptu Golfbúðina í Hafnarfirði.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

„Ég var yfirleitt búinn að vinna í bakaríinu upp úr hádegi og hafði oft á tíðum ekki mikið annað að gera en að spila golf eða kíkja í Golfbúðina. Það tókst með okkur Sigurgísla góður kunningsskapur. Það var svo árið 2004 að ég fór að aðstoða hann einn og einn seinni part yfir mesta álagstímann. Tveimur árum síðar bauð Sigurgísli mér fullt starf í Golfbúðinni og það varð úr að ég hætti í bakaríinu. Ég var í fullu starfi í Golfbúðinni í sjö ár en á þeim árum var ég að hjálpa til í bakaríinu eina og eina helgi. Í janúar 2014 hætti ég í Golfbúðinni og fór aftur í fullt starf í bakaríinu. Aftur fór ég að hjálpa til á daginn í Golfbúðinni og missti því aldrei þessi tengsl við Sigurgísla og búðina.“

Bæjarbakarí til sölu

Árið 2018, þegar Gestur hafði starfað um nokkurt skeið sem bakari í Bláa Lóninu var honum boðið að kaupa Bæjarbakarí í Hafnarfirði „Ég sagði starfi mínu lausu í Lóninu með nokkrum trega, enda þótti mér gott að vinna þar og fór í viðræður um kaup á bakaríinu. Sigurgísli í Golfbúðinni frétti af þessum vistaskiptum og fyrirætlunum mínum um að kaupa Bæjarbakarí. Hann var vissulega ánægður fyrir mína hönd en bað mig að tala við sig ef dæmið gengi ekki upp. Þá var ég farinn að skynja að kannski vantaði eigendum Bæjarbakarís frekar rekstraraðila og að lokum runnu viðræðurnar um kaupin út í sandinn.“

Samið um kaup á Golfbúðinni á innan við hálftíma

„Þegar Sigurgísla varð ljóst að ég keypti ekki bakaríið bauð hann mér að kaupa Golfbúðina. Við vorum innan við hálftíma að semja um kaupin á búðinni. Ég hef verið bakari í 42 ár en hef verið í golfinu enn lengur svo kannski var eðlilegra að fara frekar út í rekstur tengdum golfinu. Þetta er klassískt dæmi um það þegar einar dyr lokast eiga aðrar það til að opnast,“ segir Gestur sem hóf aftur störf í Golfbúðinni. Ákveðið var að gengið yrði frá kaupunum að tveimur árum liðnum.

Mikil sprenging hefur verið í áhuga fólks á golfi á Íslandi og reyndar víðar á undanförnum árum. Gestur segir þau ekki hafa farið varhluta af því. „Það er búið að vera meira en nóg að gera síðan við tókum við. Það hefur auðvitað allt verið upp á við, bæði í klúbbunum og verslununum og raun og veru í öllu sem tengist golfinu. Við sem erum í þessum geira sluppum ótrúlega vel í Covid-ástandinu enda var golfið ein af fáum íþróttum sem hægt var að stunda með sæmilega eðlilegum hætti.“

„Við keyptum að hausti, þegar búðin var að sigla inn í rólegasta tíma ársins, sem var nú kannski ekki besti tíminn, en ég vissi auðvitað hvað ég var að ganga inn í verandi búinn að starfa þar meira og minna síðan árið 2006.“

Gestur segir mesta álagstímabilið í versluninni vera í apríl, maí og júní þó það teygi sig auðvitað að einhverju leyti inn í júlí og ágúst. „Veturinn fer að mestu í að gera pantanir fyrir komandi tímabil. Þá förum við á sýningar og spáum og spekúlerum. Við þurfum að skipuleggja öll innkaup betur vegna áhrifa frá Covid. Við gerum fatapantanir með allt að 9-10 mánaða fyrirvara og pöntum kylfur, poka og kerrur að hausti. Á veturna hugsum við líka um að breyta og bæta það sem þarf.“

Golfbúðin er að Dalshrauni 10 í Hafnarfirði

Sala eykst á fatnaði

Gestur segir sölu á fatnaði vera sívaxandi hluta af heildarsölu Golfbúðarinnar. „Við höfum reynt að vera dugleg að uppfæra okkur, auka úrvalið og bæta það. Í dag eigum við t.d. meira úrval af litum. Við erum dreifingaraðilar á Íslandi fyrir ákveðin merki og reynum að leggja meiri áherslu á þau.“

Aðspurður segir Gestur að það sé ákveðin fylgni milli aukins áhuga kvenna á golfíþróttinni og bjartari lita í fatadeildinni. „Mér finnst nú landslagið reyndar vera að breytast – við erum að færa okkur hægt og rólega úr sauðalitunum og við karlarnir fylgjum með. Stærsti einstaki kúnnahópurinn okkar hafa verið kylfingar í eldri kantinum en það er einnig aðeins að breytast. Við erum farin að fá unga fólkið til okkar líka og reynum að halda í við tískustraumana. Við bjóðum t.a.m. sixpensara í góðu úrvali, sem hafa verið vinsælir hjá öllum körlum, alveg niður í tvítugt.“

Mælingar og viðgerðarþjónusta

Mælingar fyrir sérpöntuðum kylfum  er þjónusta sem golfverslanir bjóða upp á. „Loksins gátum við lagað til hér hjá okkur í Golfbúðinni og sett upp hermi sem við notum í mælingarnar. Sífellt fleiri kylfingar óskar eftir slíkri þjónustu. Það hefur orðið ákveðin vakning í þessu, fólk finnur að mælingar hjálpa og kennarar mæla með þeim. Biðtími eftir sérpöntuðum kylfum getur í dag verið allt að sex vikna langur. Í eðlilegu ástandi þyrfti fólk líklega ekki að bíða lengur en tvær vikur eftir sérpöntunum.“

Golfbúðin í Hafnarfirði rekur öflugt verkstæði. Þar er viðgerðarþjónustu fyrir kylfur og kerrur og fyrir allt sem tengist golfinu. „Við eigum í góðu samstarfi við aðrar verslanir og reynum að halda í heiðri heilbrigðri samkeppni. Þá höfum við átt farsælt samstarf við viðgerðarverkstæðið í Hraunkoti en Biggi keisari hefur tekið að sér einstaka viðgerðir sem við höfum ekki treyst okkur í.“

Gestur segir að loksins sé netverslun væntanleg á heimasíðu Golfbúðarinnar. Við höfum ekki verið með vefverslun en stefnan er að bæta úr því. Fyrst og fremst viljum við þó leggja áherslu á að halda áfram á sömu braut – að bjóða góða þjónustu og gera okkur sýnileg.“

En hvaðan kemur þessi mikli áhugi Gests á golfi? Er hann sjálfur öflugur kylfingur? „Pabbi var einn af stofnendum klúbbsins í Borgarnesi. Ég er fæddur 1963 og hóf að leika golf að alvöru tólf ára gamall en sjálfsagt hef ég verið miklu yngri þegar ég fór að prófa mig áfram með kylfu í hönd. Ég var fljótur að fara í meistaraflokksforgjöf. Það hefur verið í kringum 1980. Ég hef nokkurn veginn haldið forgjöfinni síðan þá og er með 3,3 í forgjöf í dag. Ég spila ekki mikið og hef ekki keppt mikið í golfi. Ég er nú alltaf að stefna á að fara að sinna þessu betur. Jafnvel gæti ég hugsað mér að taka þátt í öldungamótaröðinni einn daginn,“ segir Gestur Már Sigurðsson, eigandi Golfbúðarinnar í Hafnarfirði að lokum.

Þriggja ára gamall Gestur Már sveiflar kylfunni heima í stofu. Ljósmynd: Úr einkasafni