Írinn ekki í vandræðum í Bermúda rokinu
Írinn Seamus Power er vanur vindi í Waterford í sínu heimalandi en þar fór hans golf-uppeldi fram. Og þegar þú ert að leika golf á Bermuda máttu gera ráð fyrir vindi. Það nýtti Írinn sér á PGA móti helgarinnar og vann sinn annan sigur á mótaröðinni og „kassaði“ inn tæpum 170 milljónum króna.
Það voru sviptingar í lokahringnum en Power vann sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni í fyrra. Annar varð Belgíukylfingurinn Thomas Detry sem nú er að reyna fyrir sér á PGA mótaröðinni eftir nokkur ár á DP Evrópumótaröðinni. Detry tryggði sér 2. sæti með glæsilegu glompuhöggi í holu fyrir fugli á 18. holunni í lokahringnum.
Það var hins vegar Bandaríkjamaðurinn Griffin sem var með forystu í lokahringnum eftir frábært golf á fyrri níu holunum en það breyttist á 14. braut þegar Power fékk fugl en Griffin tvöfaldan skolla. Griffin tapaði sex höggum á fimm holum á seinni níu holunum en honum gekk illa að eiga við sterkan Bermúda-vindinn á seinni helmingi vallarins. Seamous Power var hins vegar ekki í vandræðum í vindinum enda vanur honum frá Írlandi.
Sigurvegarinn fór víða í skemmtilegu viðtali eftir sigurinn.