Fréttir

Mögnuð spilamennska hjá Heiðrúnu sem sigraði á Egils Gull mótinu
Heiðrún Anna slær hér í mótinu. Mynd: [email protected]
Sunnudagur 26. maí 2019 kl. 15:18

Mögnuð spilamennska hjá Heiðrúnu sem sigraði á Egils Gull mótinu

Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, sigraði í dag á Egils Gull mótinu sem fór fram á Þorlákshafnarvelli um helgina. Mótið var það fyrsta í röðinni á „Mótaröð þeirra bestu“ í sumar.

Heiðrún lék jafnt og stöðugt golf alla þrjá hringina og endaði mótið á 4 höggum undir pari eftir glæsilegar seinni níu á lokahringnum.

Heiðrún var í harðri baráttu við Helgu Kristínu Einarsdóttur og Huldu Clöru Gestsdóttur á lokahring mótsins en stakk af þegar hún fékk fimm fugla á sjö holu kafla á lokahringnum. Hún gat leyft sér að fá skolla á lokaholu mótsins en sigraði þrátt fyrir það með fjórum höggum.

Skorkort Heiðrúnar á lokahringnum.

Þetta er fyrsti sigur Heiðrúnar á GSÍ mótaröðinni en hún hefur gert fína hluti á Íslandsbankamótaröðinni undanfarin ár. Það sem gerir árangur Heiðrúnar enn betri er sú staðreynd að hún var með 5 í vallarforgjöf á Þorlákshafnarvelli og fékk því 42, 40 og 45 punkta á hringjunum þremur.

Helga Kristín og Hulda Clara enduðu jafnar í öðru sæti á pari vallarins. Saga Traustadóttir endaði í 4. sæti á 3 höggum yfir pari.

Lokastaða efstu keppenda í kvennaflokki:

1. Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, -4
2. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, 0
2. Helga Kristín Einarsdóttir, GK, 0
4. Saga Traustadóttir, GR, +3
5. Andrea Ýr Ásmundsdóttir, +6

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]