Fréttir

Tapas á Masters matseðlinum 2024
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 31. mars 2024 kl. 11:17

Tapas á Masters matseðlinum 2024

Spánverjinn Jon Rahm býður upp á tapas rétti á Masters matseðlinum 2024 en mótið hefst í næstu viku, 9. apríl. Masters er fyrsta risamót ársins og uppáhaldsmót margra af bestu kylfingum heims.

Ein af hefðunum á Masters er sú að sigurvegari síðasta árs velur matseðil ársins þar sem fyrrverandi sigurvegurum er boðið til kvöldverðar í aðdraganda mótsins. Á spænska matseðlinum er auk tapasrétta, krabbasalat en í aðalrétt er hægt að velja um Baska ribeye steik eða flatfisk. Í eftirrétt er svo kaka með kremi.

Masters mótið er frábrugðið öðrum risamótum að því leyti að það er í raun boðsmót. Nær allir bestu kylfingar heims eru þó jafnan með en eftir stofnun LIV mótaraðarinnar hefur það þó breyst. Rahm sem vann græna jakkann í fyrra er t.d. genginn til liðs við LIV. Nokkurra alvöru kylfinga þaðan er nú sárt saknað en forráðmenn mótsins hafa boðið þremur kylfingum sérstaklega, þeim Joaquín Niemann frá Chile, Dananum Thorbjörn Olesen og Ryo Hisatsune frá Japan. Tiger Woods, fimmfaldur Masters sigurvegari er skráður til leiks en hann hefur átt við meiðsli að stríða.

Sýnt er frá mótinu á Stöð 2 sport.